Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Töfralausnin ESB og herkænska Samfylkingarinnar

Ég er ekki hissa á því að 2/3 hlutar þeirra sem tóku afstöðu hafi svarað þessari spurningu játandi. Hver er svo sem á móti því að hlutir séu undirbúnir og hver vill vera óundirbúinn?

Og núna þegar hver sjálfskipaði sérfræðingurinn á eftir öðrum hefur síðustu vikurnar að Íslendingar þurfi að ganga í ESB í þeim tilgangi að fá náðarsamlegast að taka upp Euro*.

Þó þeir viti betur að þá gefa þeir í skyn að um leið og "undirbúningur að aðildarviðræðum" hefjist að þá muni öll ský hverfa af "efnahagshimninum" og hagsæld muni ríkja hér næstu hundruð ár.

Staðreyndin er hins vegar sú að fyrst þyrftum við að undirbúa okkur vel svo við stöndum sem best að vígi þegar kemur að viðræðunum. Helst þyrfti að gefa þjóðinni færi á að kjósa um samningsmarkmið.

Í viðræðunum þarf svo að ná hagstæðum samningum við ESB og leysa til þess mörg erfið mál.

Svo þurfum við að breyta stjórnarskránni til þess að geta afsalað okkur hluta fullveldis okkar.

Samningurinn þarf síðan að lokum að fá samþykki þjóðarinnar og nokkrum mánuðum seinna værum við komin inn í ESB.

En þá er samt sem áður langt í það að við fáum að taka upp Euro*, því henni fylgja ströng skilyrði um trausta efnahagsstjórn og stöðuleika.

 

Sá aukni stuðningur sem hefur myndast við ESB aðild á undanförnum mánuðum orsakast fyrst og fremst af getuleysi íslenskra stjórnvalda á að halda stöðuleika í efnahagskerfinu með krónuna okkar að vopni.

Fólk er búið að fá nóg af okurvöxtum Davíðs og vill þess vegna Euro* og vegna þess að við fáum ekki að taka hana upp einhliða að þá vill fólk ESB aðild.

Ég hef allavega ekki heyrt neinn tala um að hann vilji ESB aðild til þess að fá sameiginlega utanríkisstefnu með Evrópu, eða sameiginlegan her, forseta Evrópu eða annað sem er í pípunum þar.

Það hefur enginn nefnt hvað það verði nú gott að hafa 4 þingmenn af tæplega 800 á Evrópuþinginu.

Nei, það er Euro* fyrst og fremst sem er að draga Ísland inn í Sambandsríki Evrópu.

 

Það er samt sem áður ákveðinn kjarni sem hefur þá sýn að öll Evrópa eigi að vera sameinuð í einu ríki. Að valdinu sé betur farið hjá sameiginlegu Evrópuþingi en hjá einstökum löndum og lítur jafnvel á sig frekar sem Evrópubúa en Íslending. Og þessi kjarni er því miður ráðandi hjá annars ágætum stjórnmálaflokki, Samfylkingunni.

 

Og það sem verra er, er að það virðist vera alveg sama hvers vegna við förum inn í ESB eða hvaða samningum við náum, bara svo lengi sem við förum inn.

Þess vegna er það að eina svar Samfylkingarinnar við aðstæðum í efnahagsmálum er að tala um ESB aðild.

Öll vandamál verða úr sögunni, bankar koma hingað í röðum til þess að sinna þessum 300 þúsund manna markaði eftir aðild, þó svo reyndar að evrópskum bönkum séu allar leiðir opnar til þess að koma hingað núna.

Matvöruverð fellur niður úr öllu valdi því tollalækkunin (sem við getum reyndar fellt niður án aðildar) mun skila sér alla leið í budduna, ólíkt vsk lækkuninni.

Landbúnaðurinn verður síðan bara samkeppnishæfari á eftir ( sá hluti sem lifir af ) o.s.frv. o.s.frv.

Og öll raunverulegu vandamálin, eins og fiskveiðistjórnun, fullveldisafsal eða sú hraða þróun ESB í átt að miðstýrðu sambandsríki, er eitthvað sem tekur ekki einu sinni að minnast á.

 

Þannig er efnahagslægðin og óstöðugleikinn sem Samfylkingin gagnrýndi fyrir kosningar orðinn að besta vini hennar sem mun hjálpa henni að koma Íslandi inn í ESB, móð góðu eða illu.

Þetta fær mann vissulega til þess að íhuga hvort aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar sé ekki bara hluti af planinu. 

 

* Evran heiti Euro innan ESB og bannað er með öllu að breyta nafni eða stafsetningu á þessu heiti gjaldmiðilsins. Því er það ólöglegt að kalla hann Evru. 


mbl.is 67,8 vilja hefja undirbúning aðildarumsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Má Vegagerðin ekki gera veg???

Ég heyrði það í einhverjum fréttaþættinum í gær að Vegagerðin hefði upp úr áramótum byrjað á því að laga aðeins aðstæður, ætlað að klára eitthvað til að bæta aðstöður skildist mér, en að þá hefðu verktakar gert athugasemdir við það.

Ég skil það alveg að bjóða út stærri verk til að fá sem best verð, ég skil það að það eigi að vera skilda að bjóða út verk áður en einkaaðilar séu settir í það, þannig að allir einkaaðilar sitji við sama borð, en er ekki búið að ganga allt of langt þegar ríkisstofnun má ekki sjálf vinna verkefni ef hún kýs svo.

Með þessu áframhaldi munu "verktakar" bráðum krefjast þess að hinum ýmsu deildum sjúkrahúsanna verði lokað þar til búið verður að bjóða út rekstur þeirra, þ.e.a.s. þær deildir sem ríkið rekur enn.


mbl.is Úrbætur á Reykjanesbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er BíBí blindur eða heldur hann að allir aðrir séu það

Miðað við þetta svar að þá mætti halda að Björn Bjarnason sé annað hvort sjálfur blindur eða heldur að allir aðrir séu það. Það ætti hins vegar að vera hverjum manni ljóst, óháð sjón hans, hve mismunandi aðferðir lögreglunnar eru eftir því hverjir mótmæla, umhverfissinnar eða atvinnubílstjórar.

Þetta mál allt afhjúpar að lögreglu hefur verið beitt gegn náttúruverndarsinnum í pólitískum tilgangi. Það er kominn tími til að henda Sjálfstæðisflokknum úr Dómsmálaráðuneytinu. Svona misnotkun valds á einfaldlega ekki að líðast.


mbl.is Segir mótmælendum ekki hafa verið mismunað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljónheppnir bílstjórar

Þegar ég heyrði af tveimur alvarlegum umferðaslysum í útjaðri borgarinnar í morgun að þá vonaði ég bara innilega að bílstjórarnir væru ekki á uppáhaldsstöðunum sínum, búnir að safna mestallri morgunumferðinni í tappa við Kringluna og í Ártúnsbrekku.

Það var því eins gott að þeir voru uppteknir þarna við Hlemm og í raun ljónheppnir. Vona bara að þeir sjái núna hvað það getur verið hættulegt loka aðalleiðum fyrir allri umferð. Ef þeir þurfa að leggja bílunum sínum eitthverstaðar á götunum að þá er það í það minnsta hættuminna að loka nokkra ráðherrabíla inni. Best væri hins vegar að þeir skoðuðu málstaðinn sinn aðeins betur.


mbl.is Bílstjórar: „Við höldum áfram"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnubílstjórarnir eru ekki að mótmæla fyrir þig

Atvinnumótmælendur á stórum bílum hafa verið sniðugir að segjast vera að mótmæla háu eldsneytisverði fyrir okkur öll. Það er hins vegar annað hvort afskaplega heimskulegt eða eingöngu til þess að blekkja almenning.

Olíugjaldið hefur ekkert hækkað undanfarin ár, ekki einu sinni fylgt verðlagi og er því með minnsta móti sem gerist á Norðurlöndum.
Eina álagningin sem hækkar með hækkandi olíuverði er vaskurinn þar sem hann er fast hlutfall af heildarupphæðinni, en hægt er að færa rök að því að ríkið sé lítið að græða þar því ef fólk borgar meira fyrir bensín að þá hefur það minna milli handanna til að eyða í annað.
Svo fá atvinnubílstjórar þennan skatt endurgreiddan, svo ekki getur það verið vaskurinn sem þeir eru að mótmæla.

Ríkið gæti vissulega lækkað olíugjaldið eitthvað eða þá búið til nýtt vaskþrep fyrir bensínið, en þá þyrfti það bara að taka skattinn inn annarstaðar. Þannig hyrfi hvatinn fyrir að keyra um á sparsamari bílum og, eins og Indriði Haukur Þorláksson bendir á bloggi sínu, að þá er það þjóðhagslega óhagkvæmt að lækka álögur á eldsneyti og verra fyrir hin óbreytta borgara.

 

En hvers vegna er þá verið að mótmæla, jú mér fannst það koma bersýnilega í ljós eftir fund bílstjóra með samgönguráðherra. Þeir vilja að lög um hvíldartíma verði numin úr gildi og allar sektir felldar niður.  Þeir vilja ekki breytingar þannig að þær henti betur íslenskum aðstæðum heldur eiga bara ekki að vera nein lög í gildi um hvíldartíma vöru- og flutningabílstjóra.

Þeir vilja fá að keyra þreyttir um vegi sem varla bera bíla þeirra.

Ef þeir fá sitt í gegn að þá held ég að almenningur þurfi að taka upp þeirra aðferðir og stoppa umferð um Suðurlandveg of Vesturlandsveg til að krefjast þess að fá að keyra um landið án þess að að eiga á hættu að mæta þreyttum flutningabílstjórum


mbl.is Hætta aðgerðum í miðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr hörðustu átt

Á þessum þessum óvissutímum virðist allt vera að hækka nema laun almennings. Þeir sem hafa tekið erlend lán hafa horft upp á þau hækka um hundruð þúsunda á nokkrum vikum eða jafnvel örfáum dögum dögum og hinir sem hafa tekið innlend verðtryggð lán sjá fram á miklar hækkanir á því á næstunni um leið og mjólkin, kjötið og flest annað hækkar um jafnvel tugi prósenta.

 

Öllu þessu tekur landinn eins og hverju öðru hundsbiti, nema hvað að þegar olían hækkar að þá segir jeppafólk stopp og krefst lækkunar.

Nú er það auðvitað ekki vinsælt að gagnrýna jeppafólk hér á landi enda vandfundinn sá íslendingur sem ekki á eða langar í jeppa. Sjálfur er ég meira að segja svolítið veikur fyrir Hummer, ekki jepplingunum H2 og H3 heldur þessum alvöru.

Það er hins vegar ekki hægt að horfa fram hjá því að 90% af akstri flestra jeppa er um auðar götur innanbæjar í skutli eftir börnunum eða, með 6 auð sæti til þess að ferja eigandann í vinnuna. Þetta leiðir af sér meiri mengun, meira svifryk, dýrari gatnaviðgerðir og að sjálfsögðu meiri olíunotkun. Auk þess valda þeir bílar augljósri hættu sem eru þannig breyttir að stuðari þeirra er kominn í augnhæð þess minnihlutahóps sem fer sínar ferðir á venjulegum fólksbílum.

 

Þó ég sé fylgjandi því að fólk láti almennilega heyra í sér þegar það telur á sér brotið að þá sé ég ekki alveg að olíudropinn sé alvarlegasta vandamál þjóðarinnar eins og staðan er núna.

Þess vegna hvet ég jeppafólk til þess að nýta þessa mótmælaorku í eitthvað annað. T.d. mætti mótmæla því að þeir sömu sem stálu til sín matarskattslækkuninni ætli núna að hækka verð um 20-30%, og þannig hækka húsnæðislán þjóðarinnar um leið. Jeppafólk getur síðan lækkað olíukostnaðinn hjá sér með því að fá sér nettan smábíl í skutlið innanbæjar, þ.e.a.s. ef þeir þora að vera á þannig bíl í umferðinni í Reykjavík.


mbl.is Mótmælt við Austurvöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær hættir FIA að eyðileggja formúluna?

Þegar formúlan var skemmtilegust og mest spennandi að þá gekk tímatakan út á það hver náði besta hringnum, ekki hver var með minnst bensín á tanknum. Hver ökumáður fékk fékk 12 hringi sem hann keyrði nánast á síðustu bensín gufunum í tilraun til þess að ná fullkomnum hring. Síðan mátti fylla á eins og hverjum hentaði fyrir sjálfa keppnina.

 

Núna síðustu ár hafa þeir verið í tómu rugli að bæta við allskonar bensín reglum. Í fyrra mátti maður bæta við því bensíni eftir tímatökuna sem maður hafði eytt í henni. Það þýddi að ökumenn eyddu bara fyrsta hlutanum í að eyða bensíni til þess að létta bílinn.

Til þess að koma í veg fyrir það að þá breyttu þeir því núna þannig að ekki megi bæta neinu við eftir tímatökuna. Auðvitað bregðast ökumenn þá við því með því að spara bensín og keyra hægt og þá eru settar enn einar reglurnar til þess að koma í veg fyrir það.

Og þar sem bensín bannið gildir bara fyrir 10 efstu að þá er betra að lenda í 11. sæti en því 10.

Ég vil sjá hreina keppni, ekki neinar regluflækjur.

 


mbl.is Uppræta lull í tímatökum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Ingólfur
Ingólfur

Starfa sem hönnunarverkfræðingur hjá íslensku hátæknifyrirtæki.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband