Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Gras-toppa-hreyfingin þingmanna- Að gleyma upprunanum

Í óskipulögðu grasrótarstafi gerir hver það sem hann sér að þarfað gera til þess að ná markmiðum hópsins. Og þrátt fyrir skipulagsleysið að þá sýna dæmin að þetta getur virkað alveg stórvel. Jafnvel frábærlega eins og Borgarahreyfingin sannaði í vor.

Þar vann hópur fólks eins og einn maður með það skýra markmið að koma saman framboði fyrir alþingiskosningar, þrátt fyrir að þar væri ekki til staðar nein formleg umgjörð sem sagði til um hver ætti að gera hvað og hvernig ætti að taka ákvarðanir.

 

En eftir að fyrsta markmiðinu var náð að þá voru næstu markmið of óljós og of fjarlæg til þess að sama kerfi virkaði. Enda fór þá strax að bera á deilum í hreyfingunni.

Einn vildi ráða vissan mann sem framkvæmdastjóra, annar vildi auglýsa stöðuna á meðan þriðji benti á að enn væri ekki komin króna í kassann til þess að borga launin.

Svona gekk þetta í öllum málum en ennþá var hver bara að gera það sem hann taldi að væri hreyfingunni og málefnunum fyrir bestu en fólk deildi um aðferðirnar. Og þar sem lög hreyfingarinnar voru vægast sagt takmörkuð að þá snérust málin bara upp í deilur á milli manna sem oft urðu ansi persónulegar.

Yfir sumarið stigmagnaðist þetta ástand og upp úr sauð þegar þremenningarnir í þinghópnum snéru við afstöðu sinni og kusu gegn aðildarviðræðum.

Ef að þremenningarnir hefðu kallað saman félagsfund í skyndi og skýrt út ástæður sínar fyrir stefnubreytingunni, því þeir höfðu nokkuð til síns máls, að þá hefði þetta aldrei orðið svona mikið mál þó sjálfsagt hefðu sumir samt orðið svolítið ósáttir út í þá.

En það var ekkert sem sagði þingmönnunum hvernig þeir ættu að bregðast við svona aðstæðum né heldur sem sagði hvað almennir félagsmenn gætu gert ef þeir væru óánægðir með þingmennina.

 

Seinna um sumarið, þegar einn þingmaður skrifaði tölvupóst um heilsu annars þingmanns að þá brást sá við með því að krefjast þess við stjórnina að bréfritarinn yrði rekinn með skömm úr flokknum, annars færi hann sjálfur. Stjórnin var í stökustu vandræðum að taka á því máli því hún vissi ekki einu sinni hvort hún hefði umboð til þess að reka nokkurn mann úr hreyfingunni hvort sem hún hefði kosið það eða ekki.

Hvað sem kom upp að þá voru lögin einfaldlega ekki fullnægjandi.

 

Þess vegna var unnið að gerð nýrra laga í allt sumar í opnum málefnahópi þar sem áhersla var lögð á

  • uppbyggingu málefnastarfs
  • að hlutverk stjórnar væri skýrt afmarkað
  • gegnsæi
  • aðkomu almennra félagsmanna að ákvörðunum og hún skilgreind
  • og að skilgreina hlutverk þinghóps og samband hans við grasrótina

Endanlegt ákvörðunarvald var í flestum tilfellum í höndum félagsmanna í gegnum félagsfundi eða Landsfund og málefnahóparnir höfðu aðgang að þingmönnunum til þess að stilla saman strengi sína.

Þinghópurinn hafði reyndar gert lagahópnum grein fyrir því að þeir vissu best hvernig hlutirnir virkuðu á alþingi og væru of upptekin til að tryggja málefnahópunum meira en 3 fundi á ári og var tekið tillit til þess í tillögunum.

Það var hins vegar ekki nóg fyrir þinghópinn, heldur lögðu þeir fram sínar eigin tillögur þar sem málefnastarfið var skipulagslaust, stjórnin var til málamynda og þinghópurinn ekki með neinar skyldur aðrar en að boða félagsfund einu sinni í mánuði og síðan að vinna eftir eigin hentisemi með hinum ýmsu grasrótarsamtökum á Íslandi, hvort sem þeir væru að berjast fyrir sömu málum og Borgarahreyfingin eða einhverju allt öðru.

Landsfundurinn valdi á milli tillagnanna og þegar hann kaus gegn vilja þingmannanna að þá strunsuðu þeir út. Hið hlægilega var samt að á meðan þingmennirnir voru að kvarta yfir lögunum við fjölmiðla að þá var Landsfundurinn enn að vinna í þeim og felldi út eða gjörbreytti öllum þeim atriðum sem þeir gagnrýndu harðast.

Eftir stendur samt að hreyfingin vill sterka málefnahópa sem hafa jafnan aðgang að þinghópnum og það er greinilega of mikið

Það tók nefnilega ekki lengri tíma en sumarið fyrir þingmennina að gleyma hvaða þeir komu. Það er búið að skilja á milli grasrótarinnar og toppsins sem veit betur en hefur engan tíma til þess að útskýra hlutina fyrir okkur hinum. Engu líkara en að skorið hefði verið þarna á milli með ljá.

Það er búið að liggja í loftinu síðan á Landsfundinum að þingmennirnir væru á förum en það var samt afskaplega sorglegt að lesa lygir og dylgjur þeirra í morgun.

Stefnan hreyfingarinnar er óbreytt, stjórnin hefur ekkert vald yfir þingmönnunum og síðan á landsfundinum hefur stjórnin einbeitt sér að málefnunum, ekki talað nema í góðu um þingmennina og boðið upp á áframhaldandi samstarf.

 

Þingmennirnir hafa hins vegar núna óneitanlega unnið málefnum sínum ómældum skaða sem og gert öllum þeim grasrótarhópum sem á eftir koma enn erfiðara fyrir að vinna að sínum málefnum.

 

Það fer því vel á því ef þingmennirnir stofna saman gras-toppa-hreyfingu þar sem þeir geta skipts á að vera hverjir öðrum æðri, og óska ég þeim bara góðs gengis í því - en ekki mun ég sakna þeirra.

 

Fyrir okkur hin að þá er lítill munur á því að hafa þingmenn sem ekki vilja virða okkur viðlits og þess að eiga enga þingmenn.

 

 

 

 

 


mbl.is Hreyfingin verður til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Villandi málflutningur mbl.is

Í allan gærdag voru allir fréttamiðlar fullir af fréttum af nýjum lögum Borgarahreyfingarinnar nema það að greinarnar sem vísað var í eru alls ekki í nýjum lögum hreyfingarinnar. Enda var fundurinn enn að fjalla um lögin.

Það er svo sem ekki hægt að ásala fjölmiðlum það þegar sárir fundargestir tjá sig um lögin áður en þau eru samþykkt, og ef einhver segir eitthvað í viðtali eða bloggi sem gefur góðar fyrirsagnir, þó það eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum, að þá er það að sjálfsögðu notað.

Hins vegar finnst mér að svolítið langt gengið þegar það er haldið áfram að vitna í slíka texta þegar það er ítrekað búið að benda á að þeir eigi við lög sem aldrei voru samþykkt.

 

Nema þá að blaðamenn mbl.is fylgist bara ekki betur með.


mbl.is Þingmenn Borgarahreyfingarinnar gagnrýndir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarframboð

Í dag ákvað ég að gefa kost á mér í stjórn Borgarahreyfingarinnar sem kjörin verður á Landsfundi um helgina.

Í kvöld var kynningarfundur frambjóðenda og hér fer á eftir ca sú kynning sem ég gaf á mér og mínu framboði þar.

 

Kannski aðbyrja að segja aðeins frá mér.
Ég er hönnunarverkfræðingur og starfa hjá Össuri hf.
Ég hef alla tíð haft óbilandi áhuga á pólitík. T.d. þegar ég var 6 ára þá fékk ég smá heilahristing þannig að sjónin truflaðist tímabundið. Til þess að meta sjónina bað mamma mig um að horfa á sjónvarpið segja hvort ég þekkti hver væri áskjánum. Ég sá ekki neitt en ég gat þekkt röddina í Denna forsætisráðherra hvarsem var.
 
Ég hef hingað til ekki tekið mjög virkan þátt í starfi Borgarahreyfingarinnar fyrr en ég bauð mig fram í sáttarnefndina sem starfaði í sumar. Sú nefnd reyndi sitt besta en atburðarrásin varð svo hröð að þegar búið var að slökkva einn eld að þá blossaði annar stærri upp.
Þar sá ég hversu átakanlega okkur vantar verklagsreglur fyrir hreyfinguna. Sem betur fer stendur núna til að bæta úr því og þar hefur laganefndin unnið mikið afrek.

Það var í störfunum fyrir sáttanefndina fór ég loksins að íhuga að leggja hreyfingunni lið með þeim hætti að bjóða mig fram í stjórn og taka þar þátt í að byggja hreyfinguna upp.

Varðandi samstaf þinghópsins og grasrótarinnar sem mikið hefur verið í umræðunni að þá tel ég að það þurfi að efla það, en ég leyfi mér að efast um að rétta leiðin sé að taka upp strangasta flokksaga sem þekkist hér á landi. Nægur er hann samt.


Ég tel það nefnilega skyldu hvers þingmanns að nota eigin skynsemi í hverju máli, hlusta á rökin með og á móti og taka síðan afstöðu.
Að þingmenn geri slíkt á ekki að kosta skilyrðislausa afsögn þeirra ef þeir óvænt komast að nýrri niðurstöðu.
Ég tel líkatöluverða hættu á því að slíkar reglur mundu gera það að verkum að við stæðum uppi með þinghóp upp á núll áður en hreyfingin fagnar árs afmæli.
 
Hins vegar þarf að efla samstarfið og því mun ég leggja til á landsfundinum að fulltrúi málefnahópa hafi aðgang að þingflokksfundum ásamt stjórn og varamönnum.
Einnig mun ég leggja til að þingflokkurinn, stjórn og málefnahóparnir setji saman málefnaáætlun í upphafi hvers þingvetrar þar sem tilgreint verður hvaða mál eigi að leggja sérstaka áherslu á það árið og hvernig eigi að reyna að ná því fram.
Sú áætlun skal síðan lögð fyrir félagsfund til staðfestingar.
 
Ef þingmaður hreyfingarinnar treystir sér ekki til að styðja eitthvert atriði í áætluninni eða í formlegri stefnu hreyfingarinnar, að þá getur hann kallað tímabundið á varamann sinn.
 
Að lokum varðandi umræðuna um bandalög eða arma í þessu stjórnarkjöri að þá vil ég taka fram að ég sé ekkert að því að fólk bjóði sig saman fram, að því tilskildu að það starfi sem einstaklingar í stjórninni, ekki eftir einhverjum bandalagslínum í anda fjórflokkanna.
Einnig vil ég biðja félagsmenn að taka afstöðu til hver einstaklings sem þeir kjósa í stjórn en ekki kjósa eða sleppa því að kjósa einhvern bara vegna þess að hann er í þessu eða hinu bandalaginu. 

Höfundur

Ingólfur
Ingólfur

Starfa sem hönnunarverkfræðingur hjá íslensku hátæknifyrirtæki.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband