Mánudagur, 21. janúar 2008
Mikil er ábyrgð Sjálfstæðisflokksins í borginni
Eftir að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins misstu klúðurlega völdin í borginni hafa þeir átt svolítið bágt. Það er því skiljanlegt að þeir séu tilbúnir til þess að fórna ýmsu til þess að komast aftur að völdum. Það er t.d. næstum því skiljanlegt hvernig þeir samþykkja að stoppa þróun Vatnsmýrarinnar og að láta litla flokkinn fá að vera borgarstjóra.
En bíðum við, hvaða litla flokk? Frjálslynda flokkinn? Nei, Ólafur er ekkert í honum. F-listann? Nei, því enginn nema Ólafur sjálfur kom að þessari meirihlutamyndun með Sjálfstæðisflokknum. Varamaður hans vissi ekki einu sinni af þessum viðræðum.
Ætli Ólafur ætli að sitja einn í öllum þeim nefndum sem hann fær í þessu samstarfi? Og hver verður skipaður varamaður hans?
Og svo er það stóra spurningin, hvað er langt í að Ólafur forfallist? Við lendum öll í því að verða veik, hvað gerist ef hann fær flensu?
Margrét Sverrisdóttir var alveg með það á hreinu að hún mundi standa við sín loforð og styðja fráfarandi meirihluta. Þannig að það er ljóst að meirihlutinn mun sveiflast, jafnvel á vikufresti.
Ég er ekki viss um að hægt sé að gera Ólaf ábyrgan fyrir þessu. Hins vegar er það alveg á hreinu að Sjálfstæðisflokkurinn veit alveg hvað hann er að bjóða borgarbúum upp á ótrausta stjórnun með þessum meirihluta.
Kannski er tilgangurinn bara sá að ná að selja REI í brunasölu. Það var allavega stefnan hjá þeim þegar þeir misstu völdin.
Allt upp á borð varðandi REI | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 21. janúar 2008
Sjálfstæðisflokkurinn lætur borgina vega salt
Sjálfstæðisflokkurinn gerir greinilega allt til komast til valda, meira að segja að kaupa Ólaf F, sem hefur verið veikur mest allt kjörtímabilið, fyrir borgarstjórasætið, án þess að varamaður hans (sem hefur setið í hans stað) styðji meirihlutann. Því er það ljóst að meirihlutinn fellur í hvert skipti sem Ólafur forfallast.
Þannig mun mun borgin vega salt og enginn stöðuleiki sjáanlegur.
Og hvað á síðan að gera við REI? Ætla Sjálfstæðismenn að selja við fyrsta tækifæri?
Nýr meirihluti kynntur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 19. janúar 2008
Ótrúleg vinnubrögð Flokksmiðlanna
Mér finnst þetta ótrúlegar léleg vinnubrögð hjá bæði Fréttstofu Sjónvarps og Mogganum. Fréttin er greinilega röng.
Guðjón Ólafur talar um að flokkurinn þurfi að vísa ákveðnum gróusögum ákveðið á bug og nefnir dæmi um eina gróusöguna. Hann er ekki að taka undir hana heldur þvert á móti. Því eru fréttirnar augljóslega rangar og þó ég vilji helst sjá Framsóknarflokkinn hverfa að þá get ég ekki annað en velt því fyrir mér hver tilgangurinn hjá þessum miðlum sé að bera upp á Guðjón falskar sakir.
Gagnrýnir fatapeninga framsóknarmanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 16. janúar 2008
Svona á að meta hæfnina!!!
Eins og Árni sagði í Kastljósi í gær að þá er allt þetta mál nefndinni frægu að kenna.
Nefndin mat vitlaust hæfni umsækjenda vitlaust og með því að meta þann umsækjenda, sem augljóslega mundi fá stöðuna, minna hæfan en aðra að þá gróf hún undan tiltrú almennings á dómskerfinu.
Nefndin gerði einfaldlega bara mistök eins og Árni sagði en ég tel mig vita af hverju þessi mistök stöfuðu.
Nefndin starfar eftir reglum sem segir henni að meta hæfni umsækjenda á faglegum grundvelli og raða þeim eftir hæfni. Þarna er augljóst að það þarf að breyta þessum forsendum.
Meta á hæfni eftir eftirfarandi þáttum:
Fjölskyldutengsli umsækjanda við hátt setta flokksmenn. Því mikilsvægari flokksmenn og þeim mun skyldari, því betra.
Störf umsækjanda fyrir flokkinn eða störf fyrir hátt setta flokksmenn.
Lit flokksskírteini umsækjanda.
Eitthvert nám og starfsreynsla er æskileg svo auðveldara sé að breiða yfir raunverulega ástæðu stöðuveitingar. Rétt er að hvetja umsækjenda til að tiltaka hvert smáatriði allt niður í nemendaráðssetu í grunnskóla.
Ef nefndin hefði farið eftir þessum forsendum að þá hefði enginn gert neitt mál úr þessu og tiltrú almennings á dómskerfinu væri óskert.
Ósammála ráðherra um mat á umsækjendum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 12. janúar 2008
Á að krefjast afsagnar
Ingibjörg ætlar greinilega ekki að rugga ríkisstjórnar bátnum neitt út af þessu máli. Þetta finnst mér alls ekki nógu gott því þarna er flokkurinn sem ég kaus að samþykkja alvarlega aðför af þrískiptingu valdsins, og ekki var staðan góð á því áður. Ekki veit ég hvort ég treysti mér til að kjósa þannig flokk aftur.
Samkvæmt stjórnskipun okkar er sjálfstæði dómstólanna mjög mikilvæg og forsenda þess að allir séu jafnir fyrir dómstólum. Þegar síðan sami stjórnmálaflokkurinn hefur skipað velflesta af þeim dómurum sem enn eru starfandi, að þá er það sérstaklega mikilvægt að aðeins sé skipað í dómarastöður á faglegum forsendum.
Það eitt að vafi leiki á um að faglegar forsendur ráði valinu getur skaðað sjálfstæði dómstólanna og þeir misst traust almennings.
Nú er það vissulega þannig á Íslandi að allir eru tengdir öllum og því geta ráðherrar oft lent í því að umsækjendur tengist flokki þeirra á ýmsan hátt. Viðurkennd er sú krafa að allir eigi að hafa sama möguleika á að hljóta opinbera stöðu og óneitanlega þýðir það líka að á fólk ekki að líða fyrir tengsl sín við stjórnmálaflokka.
Þetta setur ennþá meiri ábyrgð á ráðherra sem bæði þarf að virða rétt umsækjenda og hagsmuni hins opinbera, í þessu tilfelli dómstólanna.
Ef ráðherra ætlar að ráðherra að skipa mann sem er margtengdur eigin flokki að þá verður hann að geta sýnt fram á það að faglegar forsendur hafi ráðið för.
Jafnvel þegar ráðherra velur úr jafnhæfum umsækjendum að þá verður að vera tryggt að flokkstengslin ein ráði ekki hver er valinn.
Þegar ráðherra gengur þvert gegn mati óháðrar nefndar og velur flokksmanninn fram yfir 3 mun hæfari umsækjendur í stöðu dómara að þá er það einfaldlega aðför að sjálfstæði dómvaldsins. Það er engin önnur leið að horfa á það.
Hvort mat nefndarinnar hafi verið bindandi eða ekki skiptir hér engu máli. Skipunin er alveg jafn mikil aðför.
Þingmenn Samfylkingarinnar, ásamt minnihlutanum og þeim þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem hafa sterkari réttlætiskennd en "flokks-hlýðnis-kennd", ættu því að lýsa yfir vantrausti á settan dómsmálaráðherra og krefjast afsagnar hans úr ríkisstjórn.
Samfylkingin mundi eftir sem áður styðja stjórnarsamstarfið og minnihlutinn ætti að hafa heillindi til þess að reyna ekki að nota þetta til þess að sprengja stjórnina. Þannig hefði Sjálfstæðisflokkurinn ekkert val en að sætta sig við þetta.
Tilgangurinn væri samt sem áður alls ekki að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn. Tilgangurinn væri eingöngu sá að gefa út þau skýru skilaboð að flokksráðningar verði ekki liðnar, sérstaklega ekki í dómarastöður.
Ef ekkert er gert að þá getur vel farið svo að dómsstólarnir verði í eigum ákveðins flokks, ef ekki Sjálfstæðisflokks þá þeim næsta sem fær að halda dómsmálaráðuneyti samfleytt í lengri tíma.
Ef til vill tilefni til að styrkja faglega ferla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 22. desember 2007
Gleðileg jól 22. des
Laugardag kl 06:08 hættir norðurheimskautið að halla sér burt frá sólu og byrjar að nálgast hana aftur. Dag tekur að lengja smátt og smátt, nýtt hringur byrjar, nýtt upphaf og þá einmitt eru gömlu heiðnu jólin.
Ekki er ég mikill fræðimaður um jólahald en á norðurslóðum var þetta ein af aðal hátíðum ársins enda fátt mikilvægara en að tryggja að sólin komi aftur. Sumir telja að Stonehenge á Englandi hafi verið byggt í þeim tilgangi að fagna vetrarsólstöðum.
Eitthverjar heimildir benda einnig til þess að börn, vinnukarlar og þrælar hafi á norðurslóðum fengið eitthverjar gjafir á þessari hátíð.
Í dag keppumst við að vinna á myrkrinu með öllum þeim jólaljósum sem við komum fyrir, jafnt utan dyra sem innan. Og svo leggur fólk áherslu á að börnin fái góðar gjafir en reynir einnig að gera vel við þá sem eiga um sárt að binda á þessum tíma.
Og á nýju ári höldum við svo upp á nýtt upphaf. Ekki svo ólíkt hinum norræna sið.
Þess vegna finnst mér rétt að óska ykkur öllum gleðilegra jóla í dag.
Föstudagur, 21. desember 2007
Ertu hættur að berja konuna þína?
Ég er karlmaður, er það ég sem á að hætta að nauðga samkvæmt þessari jólaósk? Á ég kannski líka að hætta að berja konuna mína?
Það sér það hver maður að með þessari "jólaósk" er verið að saka hálfa þjóðina um einn ógeðslegasta glæp sem hægt er að hugsa sér. Í raun gert ráð fyrir því að allir karlar nauðgi. Enn hvað það er góð jólakveðja frá femínistum til okkar.
Karlar sem líta niður til kvenna er venjulega kallaðir karlrembur. Er því ekki rétt að kalla femínista kvennrembur þegar þær líta svona á hitt kynið. Þið hin, sem kallið ykkur femínista án þess að fyrirlíta karla, ættuð frekar að kalla ykkur jafnréttissinna. Þannig veslast vonandi samtök kvennrembna upp og hætta að ná athygli fólks með ósmekklegum ásökunum. Á meðan gætu jafnréttissinnar unnið saman að jafnréttismálum, og það án þess að skipta starfseminni í karla- og kvennahópa.
Til kvennrembnanna: Ég skora á ykkur að biðjast afsökunar á þessari karlfyrirlitningu
Ekki um jólakort að ræða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 18. desember 2007
Hvenær eigum við von á krísufundi þar sem ákveðið verður að selja?
Er nokkur búinn að gleyma því að Sjálfstæðismenn í borginni ákváðu eftir marga krísufundi að það væri óásættanlegt að félag í opinberri eigu væri í áhættusömum rekstri.
Hvað er langt í að þingmenn Sjálfstæðisflokksins byrji að funda án formannsins og ákveða að selja verði Landsvirkjun Power hið snarasta?
Ekkert athugavert við félag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 8. desember 2007
Formúla 1: Keppni í reglusvígi
Aldrei ætlar FIA að læra að reglurnar eru að eyðileggja þessa íþrótt.
Fyrst var bannað að skipta um dekk, svo var það skylda að nota tvær týpur af dekkjum.
Tímatökurnar snúast ekki um það hver er fljótastur, heldur hver er með minnst bensín á bílnum.
Þú ert í vondum málum ef vélin springur í keppni, því þá færistu aftur um 10 sæti í næstu tímatöku, nema í öðru hverju móti.
Einu sinni var gripstýring bönnuð nema ef maður lét sjálfskiptinguna sjá um hana.
Það er bannað að taka bensín rétt eftir að öryggisbíllinn kemur út, þó maður sé að verða bensínlaus.
o.s.frv
Þetta er ekki lengur spurningin hver er besti ökumaðurinn á hraðasta bílnum, þetta er keppni hver finnur bestu leiðirnar framhjá reglunum.
Ætli liðin taki ekki bara upp á því að skella bílunum ofan á flugvélar til að prófa loftmótstöðu núna eftir að takmörk eru sett á vindgöngin.
FIA takmarkar notkun vindganga á næsta ári | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 28. nóvember 2007
Varhugarvert
Ég set alltaf fyrirvara við það þegar efni er haldið frá almenningi, jafnvel þegar tilgangurinn er góður. Ekki það að ég vilji að almenningur hafi aðgang að barnaklámi, alls ekki, en það vaknar spurningin hver á að stjórna því hvað fer í gegn og hvað ekki? Hver/hvað fer yfir fjölskyldualbúmið og úrskurðar hvort eitthvað þar sé ósæmilegt? Það er alveg ljóst að svona sía mun loka á fullt af efni sem ekki tengist barnaklámi á nokkurn hátt, vegna þess einfaldlega að svona síur eru langt frá því að vera fullkomnar.
Önnur ástæða fyrir því að svona síur eru varhugaverðar er sú að það mun ekki líða á löngu þar til rasistaefni og öfgatrúarsíðum verður bætt við það sem verður lokað á, því hverjum er jú ekki illa við rasista og öfgatrúarmenn. En þá erum við fyrst komin á verulega varhugavert stig ritskoðunnar því þá er byrjað að loka á skoðannir (þó það séu vissulega heimskulegar skoðannir) og þegar það er byrjað þá getum við alveg átt von á að falun gong og vitleysingarnir í Saving Iceland lendi líka á bannlistanum.
Þriðja ástæðan gegn svona síu er sú að barnaperrarnir munu nánast strax finna leið fram hjá henni. Þegar unglingar með of mikinn frítíma geta brotið upp hvaða þá afritunarvörn sem Hollywood og tónlistariðnaðurinn dettur í hug að setja á vörurnar sínar að þá sýnir það bara að það er ómögulegt að stoppa eitthvað með eitthverjum rafrænum búnaði.
Það er víst sagt að klámiðnaðurinn hafi verið hvað bestur í að nýta sér netið á nýjan hátt og á víst heiðurinn af "pop-up" gluggunum. Trúir eitthver því að sía komi til með að stoppa barnaperrana?
Mér lýst hins vegar stórvel á þennan rauða takka og t.d. mætti útfæra það þannig að hann kæmi sjálfkrafa upp á þeim síðum sem sían telur varhugarverðar.
Almennir notendur eru nefnilega öflugasta tækið á netinu í dag og saman hafa netverjar skrifað alfræðibækur, orðabækur, sagt fréttir frá ólíkum hliðum á heimsatburðum, skemmt hverjum öðrum með myndbandsbútum o.s.frv. Almennir netnotendur eru líka á móti barnaklámi og munu tilkynna það ef þeim er gert það kleift.
Unnið við að setja upp síur fyrir myndefni á netinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Færsluflokkar
Eldri færslur
- September 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- September 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar