Leita í fréttum mbl.is

Enginn upplausn

bara sár fyrverandi stjórnarmaður sem er grunaður um að hafa verið með puttana í kökuboxinu.
mbl.is Upplausn innan Borgarahreyfingarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umboð Hæstaréttar?

Hvernig er hægt að treysta Hæstarétti til að vera hlutlaus í þessu máli þegar meirihluti dómaranna eru skipaðir af SjálfstæðisFLokknum.

SjálfstæðisFLokkurinn er sá eini flokkurinn sem er skíthræddur við stjórnlagaþingið. Þeir óttast lýðræðisumbætur, þeir óttast persónukjör, þeir óttast að auðlindir okkar verði í þjóðareign, þeir óttast faglega skipun dómara.

Í stuttu máli sagt, FLokkurinn óttast um FLokksræðið sitt, og hæstaréttardómarar eru fulltrúar þeirra.

 

Spurningin er hins vegar: Hvað gerir almenningurinn? Mun hann velja óbreytt ástand meða flokksræði og spillingu, eða mun hann styðja að stjórnlagaþing verði haldið?


mbl.is Kemur ekki til greina að hætta við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óþarfa rugl

Maður hefði haldið að þingmenn hefðu eitthvað þarfara að gera annað en að koma með illa ígrundaðar tillögur um smáatriði sem hafa eflaust þann eina tilgang að auðvelda viðkomandi að ímynda sér að þeir búi í USA.

Staðreyndin er sú að tillagan passar enganveginn fyrir íslenskar aðstæður.

  • Hérna eru hægt að fara til hægri framhjá ljósunum á öllum stærstu gatnamótunum, sem er mun öruggari lausn, þannig að hagræðið af reglubreytingunni er minniháttar
  • Minni ljós sem ekki eru með hægri beygju fram hjá ljósunum eru venjulega á það litlum gatnamótum að þar sama akrein notuð fyrir hægribeygjur og þá sem fara áfram, þannig að um leið og einn bíll ætlar að fara beint áfram, að þá eru allir stopp fyrir aftan hann. Þetta skapar aukinn pirring í umferðinni
  • Á einhverjum gatnamótum verður talið of hættulegt að leyfa hægribeygjur á rauðu ljósi, og þá er það bannað með skilti. Þetta þýðir að ökumenn verða alltaf að kíkja líka á eftir skiltinu sem eykur rugling og óöryggi. ERGO óhöppum fjölgar.
  • Þó svo að það hafi verið snjólétt (á suðvesturhornininu) undanfarin ár, að þá koma samt stundum dagar þar sem ekki sést á nein skilti vegna þess að snjór sest á þau.
Semsagt, minniháttar hagræði en mun kosta fjölgun umferðaóhappa.
mbl.is Frumvarp um hægri beygju á rauðu ljósi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmeirihluti er ekki lengur nóg

Ólafur Þ. segir það undarlegt að ríkisstjórnin hafi ekki dregið lögin til baka þar sem þau voru í raun úreld og enginn að berjast fyrir samþykki þeirra. Og hann segir að ríkisstjórnin hafi kannski ekki talið sig hafa meirihluta fyrir því.

Ég held að hún hefði alveg haft meirihluta fyrir því, en það er ekki lengur nóg.

Stjórnarandstaðan telur það sitt hellst verkefni að gera ríkisstjórninni erfitt fyrir að byggja hérna upp landið eftir hrun, og hún hefði bara tafið málið framyfir kosningarnar.

Þannig er þingmeirihluti ekki nægjanlegur á meðan minnihlutinn er tilbúinn að stöðva allt, til þess að eyðileggja fyrir.

 


mbl.is Atkvæðagreiðslan sérkennileg um margt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað má ICESAVE málið kosta mikið?

Hvað má ICESAVE málið að kosta mikið áður en við afgreiðum það?

Hvað er það búið að kosta okkur nú þegar? Veikara gengi, erfiðari fjármögnun atvinnulífsins, meira atvinnuleysi, tíma og athygli stjórnmálamanna í öllum flokkum, lánstraust, og þá er ekki talinn sá beini kostnaður sem hefur farið í lögfræðikostnað, samninganefndir, utanlandsferðir, kosningarnar og vinnu embættismanna.

Hvað þurfum við að borga meira áður en þetta mál verður afgreitt?

 

Ég held að við getum treyst því að stjórnarandstaðan geri sitt allra besta til þess að tefja þetta mál, enda hagnast þeir á því að halda því óleystu.

Þegar upp er staðið hefði líklega verið langt um ódýrara fyrir okkur ef upprunalegu Icesave samningarnir hefðu verið verið samþykktir "óséðir", því á meðan stjórnarandstaðan hugsar bara um að eyðileggja fyrir stjórninni, að þá mun ekkert ganga í uppbyggingunni.


mbl.is Stund samstöðunnar runnin upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver var kjörsóknin?

Í öllum kosningum sem ég man eftir hafa kjörstjórnir byrjað á því að segja hver kjörsóknin hafi verið.

"Á kjörskrá voru bla bla bla, alls greiddu atkvæði bla bla..."

En nú var enginn sem minntist á kjörsóknina. Hvers vegna ekki?

 

Það var vitað að hún væri afskaplega dræm en það mátti greinilega ekki upplýsa hve dræm hún var.

 

Simmi var síðan auðvitað bara fyndinn þegar hann reyndi að halda því fram að kjörsóknin væri bara fín, með því að miða hana við lönd þar sem kjörsókn er almennt dræm.


mbl.is Nær allir segja nei
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáránleg fyrirsögn dbl.is

  • Mikill meirihluti telur synjun forsetans skaða okkur.
  • 90% þjóðarinnar ætlar að taka þátt í kosningunni.
  • Meirihlutinn ætlar að samþykkja
  • Aðeins 40% ætla að hafna ríkisábyrgðinni, sú tala hefur hrunið úr um 70 prósentunum sem voru fyrir jól.

 

Allar þessar spurningar eru um skýra valmöguleika og þær eru samhljóma því að lítast illa á synjun forsetans.

 

dbl.is velur hins vegar í fyrirsögn, niðurstöðuna sem skar sig úr, en fjallaði reyndar um mjög óljósan valkost.

 

 


mbl.is 67% vilja fella Icesave-lögin úr gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opið bréf til Herra Ólafs Ragnars Grímssonar

Kæri Ólafur,

Ég man vel eftir forsetakosningunum árið 1996 og þó mig vantaði ár í að fá kosningaréttinn að þá var ég með það á hreinu að af þeim frambjóðendum sem voru þá í framboði leist mér best á þitt framboð.

Hluti af skyldum forseta Íslands er að liðsinna Íslendingum við að koma hugmyndum sínum á framfæri í útlöndum, þar með töldum útrásarvíkingunum en eftir hrunið er það auðvitað illa séð. Ég hef hins vegar ekki gleymt því að þið forsetahjónin hafið einnig verið einstaklega dugleg við að koma íslenskum listamönnum og frumkvöðlum á framfæri.

Mér hefur einnig fundist til um viðleitni þína til að treysta stjórnlagalegt hlutverk forsetans og varð því afskaplega feginn þegar þú synjaðir fjölmiðlalögunum um undirskrift, enda voru það lög skrifuð af einum manni gegn öðrum. Þannig vinnubrögð eiga ekki að sjást í lýðræðisríki og þegar um er að ræða lög um fjölmiðla eru þannig vinnubrögð ógn við bæði tjáningarfrelsið og lýðræðið sjálft.

Auðvitað hafa þér orðið á mistök í starfi, slíkt kemur fyrir alla, þau stærstu eru líklega óheppilega náin tengsl við okkar fyrrum dáðu útrásarvíkinga. En í það heila tekið hefur þú verið nokkuð góður forseti, verið duglegur að ferðast um landið en ekki síður hefur þú verið óþreytandi við að kynna landið okkar.

 

En í dag hef ég áhyggjur.

Ég hef áhyggjur vegna þess að þú hefur gefið það sterklega í skyn að þú hyggist synja lögum um ríkisábyrgð fyrir Iceave um samþykki þitt og vísa þeim þar með til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég hef engan áhuga á því að borga skuldir sem útrásarvíkingarnir stofnuðu til í útlöndum. Ég á bágt með að sjá hvaða skyldu ég hef til þess.

Hins vegar er mér orðið ljóst að íslenska ríkið kemst ekki hjá því að borga þessar skuldir, vegna þess að íslenska ríkið brást eftirlitshlutverki sínu.

Það er því ekki lengur spurning um hvort ég þarf að borga minn skerf af þessum skuldum heldur hvernig, hvenær og á hvernig kjörum.

 

Í 7 mánuði hefur þetta mál lamað þjóðþing okkar og tekið stærstan hluta athygli stjórnkerfisins sem og almennings.

Þessa 7 mánuði hafa útrásarvíkingarnir haft til þess að koma fjármunum undan, afskrifa skuldir sínar og sölsa undir sig íslensk fyrirtæki á ný vegna þess að stjórnkerfið hefur ekki haft tíma né krafta til þess að stoppa í götótta löggjöf og eftirlitskerfi.

Þessa 7 mánuði hefur uppbygging efnahagskerfisins verið í biðstöðu, meðal annars vegna grímulausra þvingana svokallaðra vinaþjóða okkar. Auðvitað er það ósanngjarnt, en við stöndum frammi fyrir þessum aðgerðum vopnlaus, einfaldlega vegna þess að fyrir hrunið voru íslensk stjórnvöld með allt niðri um sig gagnvart fjármálakerfinu.

Því vil ég biðja þig, kæri Ólafur, að íhuga það vel hvort það sé framtíð lands og þjóðar fyrir bestu að setja lögin um ríkisábyrgð í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég tel næsta víst að meginhluti þjóðarinnar vilji ekki þurfa að standa við þessar skuldbindingar og mjög margir myndu þess vegna hafna hvaða samningum sem er. En ég er viss um að þú gerir þér grein fyrir því hvaða afleiðingar það hefði á framtíð okkar að hafna öllum samningum.

Málinu mun ekki ljúka við það að þjóðin hafni þessum samningum, og þess vegna er mikilvægasta spurningin, höfum við efni á því að eyða meiri tíma í þetta mál?

Icesave er vissulega stór biti fyrir okkur að gleypa en hann er því miður ekki eini vandinn okkar, og ekki einu sinni sá stærsti. Við getum ekki leyft okkur að eyða öllum okkar kröftum áfram í þetta mál.

Það er kominn tími til þess að snúa sér að öðru.

Kær kveðja,

Ingólfur Harri


Til hamingju Ísland!

Árinu 2009 verður minnst fyrir það að þá eyddi Alþingi um 7 mánuðum í Icesave á meðan önnur mál voru látin sitja á hakanum.

Árið sem ábyrgðarflokkar hrunsins, með Sjálfstæðisflokkinn í broddi fylkingar, héldu uppi skipulegasta málþófi sem sést hefur í sögu lýðveldisins þó þeir vissu vel að Íslendingar hefðu engan annan raunhæfan kost í stöðunni en að samþykkja samningana.

Árið þar sem stjórnarandstaðan stóð í vegi fyrir enduruppbyggingunni, og þar með hagsmunum þjóðarinnar, vegna þess að þannig væri hugsanlega hægt að sprengja stjórnina áður en skýrsla rannsóknarnefndarinnar skilar niðurstöðu sinni.

 

Núna er loksins er niðurstað komin í þetta mál og ég vona bara að núna á nýju ári getum við loksins farið að einbeita okkur af öllum hinum málunum og vonandi unnið saman að uppbyggingunni.


mbl.is Alþingi samþykkti Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í tilefni þjóðfundar

Þó þjóðfundurinn eigi ekki að vera stjórnlagaþing að þá held ég að hann sé afurð sömu þarfa þjóðfélagsins, þarfa sem ríkið er ekki að sinna en mauraþúfan hefur í staðin tekið að sér með óeigingjörnu starfi.

Ég tek hattinn ofan af fyrir mauraþúfunni, sjálfboðaliðum og þátttakendum. Óska þeim góðs gengis á morgun og í tilefni þjóðfundarins  langar mig til þess að birta þessa stuttu grein eftir Sigga Hrelli um mikilvægi þess að þjóðin fái stjórnlagaþing.

 

 

Hvað kostar að slá stjórnlagaþingi á frest?

Forsætisráðherra lagði í vikunni fram frumvarp til laga um ráðgefandistjórnlagaþing. Þar er reiknað með að 25-31 þjóðkjörnir fulltrúar sitji og ræði fyrirfram skilgreind viðfangsefni með endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands að markmiði.

Stjórnarskráin er grundvöllur stjórnarfars og mannréttinda í landinu. Hún er æðstu lög ríkisins og verður mikilvægi hennar seint ofmetið.  Þess vegna er afar áríðandi að hún endurspegli vilja almennings í dag en ekki forfeðra okkar á síðustu öld.

Núgildandi stjórnarskrá var upphaflega samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu á lýðveldisárinu 1944 án þess að stjórnlagaþing kæmi að undirbúningi hennar.  Hún er að grunni til byggð á stjórnarskrá danska konungsríkisins og er vissulega barn sins tíma. Síðan 1944 hefur Alþingi samþykkt nokkrar breytingar á henni án þess að almenningur hafi fengið að kjósa um það sérstaklega og einnig hafa ákvæði hennar verið túlkuð af lögspekingum, stundum á annan hátt en orðanna hljóðan segir til um.

Gæti hugsast að sú aðferðarfræði sem tilgreind er í frumvarpi forsætisráðherra endurspegli illa vilja almennings í landinu? Er hætta á því að svo fámennur hópur kjörinna fulltrúa verði öðru fremur fulltrúar stjórnmálaafla, efnafólks eða þjóðþekktra einstaklinga? Hvað með talsmenn minnihlutahópa, s.s. innflytjenda, öryrkja og brottfluttra Íslendinga? Er ekki hætta á að kosningamaskínur stjórnmálaflokkanna og ítök valdamikilla afla í fjölmiðlum fái of miklu ráðið um kjör fulltrúanna?

Sumir alþingismenn vilja halda því fram að stjórnlagaþing sé ekki neitt forgangsmál og að brýnni verkefni þurfi að hafa forgang. Sömu aðilar hafa einnig býsnast yfir miklum tilkostnaði og sjá ofsjónum yfir því að eyða opinberu fé í slíkt. Nú um helgina er heilt ár liðið síðan ræðumenn á Austurvelli fóru að tala um Nýtt lýðveldi á rústum hins gamla. Umræðan náði hámarki upp úr áramótum þegar Íslendingar loksins vöknuðu og byltingaröflin sýndu hvers þau voru megnug. Ríkisstjórnin hrökklaðist frá völdum og mótmælendur héldu heim. Síðan þá hefur ekkert gerst.

En hvað kostar að slá stjórnlagaþingi á frest eða vanda illa til verka? Hversu margir Íslendingar gefa upp vonina og flytjast til annarra landa? Það sem af er árinu 2009 eru á þriðja þúsund íslenskir ríkisborgarar brottfluttir frá Íslandi umfram aðflutta. Á öllu árinu 2008 voru þeir 477. Hversu margir verða þeir árið 2010? Hvers vegna ætti folk að vilja búa hér áfram við krappari kjör ef engar grunnforsendur breytast til batnaðar?

Þjóðfundurinn er mikilvæg tilraun því að hann getur sýnt fram á að stórt tilviljunarkennt úrtak úr þjóðskrá er mun betri þverskurður af þjóðfélaginu en 25-31 þjóðkjörnir fulltrúar. Þjóðfundurinn getur líka sýnt fram á að kostnaður við raunverulegt stjórnlagaþing þarf ekki að vera mældur í milljörðum. Stöndum vörð um hag almennings og krefjumst þess að fá stjórnlagaþing hið fyrsta, skipað almenningi fyrir almenning og án þátttöku stjórnmálaflokkanna. Ekki ráðgefandi því Alþingi á að vinna fyrir fólkið í landinu en ekki öfugt.  Þjóðin veit sjálf hvað henni er fyrir bestu.

Sigurður Sigurðsson

Næsta síða »

Höfundur

Ingólfur
Ingólfur

Starfa sem hönnunarverkfræðingur hjá íslensku hátæknifyrirtæki.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband