Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Í tilefni þjóðfundar

Þó þjóðfundurinn eigi ekki að vera stjórnlagaþing að þá held ég að hann sé afurð sömu þarfa þjóðfélagsins, þarfa sem ríkið er ekki að sinna en mauraþúfan hefur í staðin tekið að sér með óeigingjörnu starfi.

Ég tek hattinn ofan af fyrir mauraþúfunni, sjálfboðaliðum og þátttakendum. Óska þeim góðs gengis á morgun og í tilefni þjóðfundarins  langar mig til þess að birta þessa stuttu grein eftir Sigga Hrelli um mikilvægi þess að þjóðin fái stjórnlagaþing.

 

 

Hvað kostar að slá stjórnlagaþingi á frest?

Forsætisráðherra lagði í vikunni fram frumvarp til laga um ráðgefandistjórnlagaþing. Þar er reiknað með að 25-31 þjóðkjörnir fulltrúar sitji og ræði fyrirfram skilgreind viðfangsefni með endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands að markmiði.

Stjórnarskráin er grundvöllur stjórnarfars og mannréttinda í landinu. Hún er æðstu lög ríkisins og verður mikilvægi hennar seint ofmetið.  Þess vegna er afar áríðandi að hún endurspegli vilja almennings í dag en ekki forfeðra okkar á síðustu öld.

Núgildandi stjórnarskrá var upphaflega samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu á lýðveldisárinu 1944 án þess að stjórnlagaþing kæmi að undirbúningi hennar.  Hún er að grunni til byggð á stjórnarskrá danska konungsríkisins og er vissulega barn sins tíma. Síðan 1944 hefur Alþingi samþykkt nokkrar breytingar á henni án þess að almenningur hafi fengið að kjósa um það sérstaklega og einnig hafa ákvæði hennar verið túlkuð af lögspekingum, stundum á annan hátt en orðanna hljóðan segir til um.

Gæti hugsast að sú aðferðarfræði sem tilgreind er í frumvarpi forsætisráðherra endurspegli illa vilja almennings í landinu? Er hætta á því að svo fámennur hópur kjörinna fulltrúa verði öðru fremur fulltrúar stjórnmálaafla, efnafólks eða þjóðþekktra einstaklinga? Hvað með talsmenn minnihlutahópa, s.s. innflytjenda, öryrkja og brottfluttra Íslendinga? Er ekki hætta á að kosningamaskínur stjórnmálaflokkanna og ítök valdamikilla afla í fjölmiðlum fái of miklu ráðið um kjör fulltrúanna?

Sumir alþingismenn vilja halda því fram að stjórnlagaþing sé ekki neitt forgangsmál og að brýnni verkefni þurfi að hafa forgang. Sömu aðilar hafa einnig býsnast yfir miklum tilkostnaði og sjá ofsjónum yfir því að eyða opinberu fé í slíkt. Nú um helgina er heilt ár liðið síðan ræðumenn á Austurvelli fóru að tala um Nýtt lýðveldi á rústum hins gamla. Umræðan náði hámarki upp úr áramótum þegar Íslendingar loksins vöknuðu og byltingaröflin sýndu hvers þau voru megnug. Ríkisstjórnin hrökklaðist frá völdum og mótmælendur héldu heim. Síðan þá hefur ekkert gerst.

En hvað kostar að slá stjórnlagaþingi á frest eða vanda illa til verka? Hversu margir Íslendingar gefa upp vonina og flytjast til annarra landa? Það sem af er árinu 2009 eru á þriðja þúsund íslenskir ríkisborgarar brottfluttir frá Íslandi umfram aðflutta. Á öllu árinu 2008 voru þeir 477. Hversu margir verða þeir árið 2010? Hvers vegna ætti folk að vilja búa hér áfram við krappari kjör ef engar grunnforsendur breytast til batnaðar?

Þjóðfundurinn er mikilvæg tilraun því að hann getur sýnt fram á að stórt tilviljunarkennt úrtak úr þjóðskrá er mun betri þverskurður af þjóðfélaginu en 25-31 þjóðkjörnir fulltrúar. Þjóðfundurinn getur líka sýnt fram á að kostnaður við raunverulegt stjórnlagaþing þarf ekki að vera mældur í milljörðum. Stöndum vörð um hag almennings og krefjumst þess að fá stjórnlagaþing hið fyrsta, skipað almenningi fyrir almenning og án þátttöku stjórnmálaflokkanna. Ekki ráðgefandi því Alþingi á að vinna fyrir fólkið í landinu en ekki öfugt.  Þjóðin veit sjálf hvað henni er fyrir bestu.

Sigurður Sigurðsson

Bara að benda á einhvern verri

Þau koma ekki á óvart viðbrögð stjórnmálamanna þegar þeir verða uppvísir af spillingu og sjálftöku.

Þeir einfaldlega finna einhvern annan verri og þar með er eins og þeirra eigin spilling sé gleymd og fyrirgefin, það þarf ekki einu sinni að biðjast afsökunar, hvað þá að skila peningunum.

Ekki það að ég vilji eitthvað verja Dag endilega, auðvitað ætti hann líka að skila þessum rausnarlegu launum fyrir vinnu sem hann hefur ekki tíma til þess að sinna. En ætli hann finni ekki bara einhvern enn annan sem fær enn hærri laun fyrir hvern fund, og fái þar með syndaraflausn, í það minnsta í augum fjölmiðla.

 

Það er ekki nema von að stór meirihluti þjóðarinnar telji mikið um spillingu í stjórnsýslunni.


mbl.is Dræm mæting hjá Degi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Ingólfur
Ingólfur

Starfa sem hönnunarverkfræðingur hjá íslensku hátæknifyrirtæki.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband