Leita í fréttum mbl.is

Opið bréf til Herra Ólafs Ragnars Grímssonar

Kæri Ólafur,

Ég man vel eftir forsetakosningunum árið 1996 og þó mig vantaði ár í að fá kosningaréttinn að þá var ég með það á hreinu að af þeim frambjóðendum sem voru þá í framboði leist mér best á þitt framboð.

Hluti af skyldum forseta Íslands er að liðsinna Íslendingum við að koma hugmyndum sínum á framfæri í útlöndum, þar með töldum útrásarvíkingunum en eftir hrunið er það auðvitað illa séð. Ég hef hins vegar ekki gleymt því að þið forsetahjónin hafið einnig verið einstaklega dugleg við að koma íslenskum listamönnum og frumkvöðlum á framfæri.

Mér hefur einnig fundist til um viðleitni þína til að treysta stjórnlagalegt hlutverk forsetans og varð því afskaplega feginn þegar þú synjaðir fjölmiðlalögunum um undirskrift, enda voru það lög skrifuð af einum manni gegn öðrum. Þannig vinnubrögð eiga ekki að sjást í lýðræðisríki og þegar um er að ræða lög um fjölmiðla eru þannig vinnubrögð ógn við bæði tjáningarfrelsið og lýðræðið sjálft.

Auðvitað hafa þér orðið á mistök í starfi, slíkt kemur fyrir alla, þau stærstu eru líklega óheppilega náin tengsl við okkar fyrrum dáðu útrásarvíkinga. En í það heila tekið hefur þú verið nokkuð góður forseti, verið duglegur að ferðast um landið en ekki síður hefur þú verið óþreytandi við að kynna landið okkar.

 

En í dag hef ég áhyggjur.

Ég hef áhyggjur vegna þess að þú hefur gefið það sterklega í skyn að þú hyggist synja lögum um ríkisábyrgð fyrir Iceave um samþykki þitt og vísa þeim þar með til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég hef engan áhuga á því að borga skuldir sem útrásarvíkingarnir stofnuðu til í útlöndum. Ég á bágt með að sjá hvaða skyldu ég hef til þess.

Hins vegar er mér orðið ljóst að íslenska ríkið kemst ekki hjá því að borga þessar skuldir, vegna þess að íslenska ríkið brást eftirlitshlutverki sínu.

Það er því ekki lengur spurning um hvort ég þarf að borga minn skerf af þessum skuldum heldur hvernig, hvenær og á hvernig kjörum.

 

Í 7 mánuði hefur þetta mál lamað þjóðþing okkar og tekið stærstan hluta athygli stjórnkerfisins sem og almennings.

Þessa 7 mánuði hafa útrásarvíkingarnir haft til þess að koma fjármunum undan, afskrifa skuldir sínar og sölsa undir sig íslensk fyrirtæki á ný vegna þess að stjórnkerfið hefur ekki haft tíma né krafta til þess að stoppa í götótta löggjöf og eftirlitskerfi.

Þessa 7 mánuði hefur uppbygging efnahagskerfisins verið í biðstöðu, meðal annars vegna grímulausra þvingana svokallaðra vinaþjóða okkar. Auðvitað er það ósanngjarnt, en við stöndum frammi fyrir þessum aðgerðum vopnlaus, einfaldlega vegna þess að fyrir hrunið voru íslensk stjórnvöld með allt niðri um sig gagnvart fjármálakerfinu.

Því vil ég biðja þig, kæri Ólafur, að íhuga það vel hvort það sé framtíð lands og þjóðar fyrir bestu að setja lögin um ríkisábyrgð í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég tel næsta víst að meginhluti þjóðarinnar vilji ekki þurfa að standa við þessar skuldbindingar og mjög margir myndu þess vegna hafna hvaða samningum sem er. En ég er viss um að þú gerir þér grein fyrir því hvaða afleiðingar það hefði á framtíð okkar að hafna öllum samningum.

Málinu mun ekki ljúka við það að þjóðin hafni þessum samningum, og þess vegna er mikilvægasta spurningin, höfum við efni á því að eyða meiri tíma í þetta mál?

Icesave er vissulega stór biti fyrir okkur að gleypa en hann er því miður ekki eini vandinn okkar, og ekki einu sinni sá stærsti. Við getum ekki leyft okkur að eyða öllum okkar kröftum áfram í þetta mál.

Það er kominn tími til þess að snúa sér að öðru.

Kær kveðja,

Ingólfur Harri


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingólfur
Ingólfur

Starfa sem hönnunarverkfræðingur hjá íslensku hátæknifyrirtæki.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband